28. jan. 2009

Hliðar saman hliðar vinstri snú...

Bless xD
Hef alltaf talið mig hægri sinnaðan. Er reyndar orðinn leiður á þessari hægri/vinstri vitleysu en vil kannski segja að ég aðhyllist einfaldlega athafnafrelsi með skýrum leikreglum svo ég geti rekið mitt fyrirtæki af þokkalegu öryggi.

Sjálfstæðisflokkurinn var sá flokkur sem manni fannst maður helst eiga samleið með. xD var flokkur atvinnurekenda stórra sem smárra og þeirra sem aðhyllast almennt athafnafrelsi. Þeir hafa hinsvegar algjörlega brugðist trausti okkar. Ríkisvaldið hefur verið misnotað með hörmulegum hætti, vildarvinum úthlutað störfum, eignum og forréttindum, horft framhjá gengdarlausri spillingu í viðskiptalífinu, hrossakaup með eignir ríkisins o.s.frv. o.s.frv. Áhersla á stóru lausnirnar í atvinnumálum eru ráðandi hjá flokknum. Þeir hafa gleymt sér í valdabaráttu og tekið að sér að slást við tilteknar viðskiptablokkir í nafni ríkisins. Davíð missti trúverðugleika sem maður almenntra leikreglna þegar hann byrjaði að beita sér gegn tilteknum auðmönnum. Ekki það að maður sé fylgismaður slíkra viðskiptablokka. Þær eru oft eitur í beinum okkar sem rekum lítil fyrirtæki. Það er alveg á hreinu að stjórnvöld þurfa að koma hringamyndunum innan atvinnuveganna fyrir kattarnef. Hvernig það skal útfært nákvæmlega verð ég að viðurkenna að ég kann ekki en aðrar þjóðir hafa reynslu af þessu og geta kennt okkur sitthvað. Athafnafrelsið var fyrir lýðinn en meira athafnafrelsi fyrir suma.

Aðrir stjórnmálaflokkar eru ekki saklausir í ofangreindu en Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið í ótvíræðri forystu. Hafa þeir svona veikgeðja einstaklinga innanborðs? Hefðu aðrir staðið betur gegn spillingu og græðgi? Ég veit það ekki.

Eignir auðmanna heilagar
Ég vona að núverandi þingmeirihluti beri gæfu til að hreinsa til í kerfinu. Ég vildi óska þess að VG fengi meiri stuðing við það að frysta eignir auðmanna sem grunaðir eru um græsku. Það þarf bara pólitískan vilja til verksins. Allt þetta lagatal varðandi stjórnarskrá og eignarrétt er tóm tjara í raun og til þess fallin að slá ryki í augu almennings. Eignarétturinn virðist heilagur þegar auðmenn eiga í hlut en eignir venjulegs fólks eru á sama tíma "fair game".

Bankarnir og íbúðalánin
Bankar gera sig klára í stórfelda eignaupptöku í krafti vísitölubreytinga og gjaldeyristrygginga lána. Stórslys sem þeir sjálfir, já millistjórnendur og hærra settir ásamt eigendum þessara stofnana ollu með hreinni græðgi (hlutafjárkaup, hlutdeild í alskyns braski og stjórnlausar bónusgreiðslur m.a.). Margir bankamenn gera sér grein fyrir því hvað það er heimskulegt að bankar taki til sín fasteignir í stórum stíl. Ekki þarf annað en velta fyrir sér hlutum eins og viðhaldi og slíkum kostnaði til að átta sig á því kviksindi sem þetta getur orðið. Eina leiðin út úr vitleysunni er fyrir bankann að stofna eignarhaldsfélag sem heldur í eignirnar, viheldur og leigir þar til viðunandi verð fæst fyrir þær. Þetta væri hinsvegar í meiralagi vafasamt siðferðilega gagnvart þeim sem misstu eignirnar vegna framferði bankanna.

Hausar munu fjúka
Rannsóknarnefndin þarf að skoða hlut millistjórnenda í þeirri spillingu sem viðgekkst í bönkunum. Hvernig þeir hleyptu lánsumsóknum í gegn fyrir mútur frá umsækendum ofl. Það þarf að skoða bankainnistæður og fjármagnsflutninga millistjórnenda. Einnig þarf að skoða innherjaviðskipti þeirra. Fjöldi bankamanna seldu í markaðssjóðum fyrir sjálfa sig og náskylda rétt fyrir hrun. Í sumum tilfellum mínútum fyrir lokun. Við þurfum að losna við fjárfestingabankastarfsemi út úr hefðbundinni viðkiptabankastarfsemi. Þetta tvennt rekst afar illa saman. Áhættufjárfestingar eru allt of freystandi þegar allt það lausafé er við hendina sem hlýst af hefðbundinni bankastarfsemi.

Fjármálaeftirlit
Bankar hafa alltof alltof mikil völd og starfa í raun undir pilsfaldi ríkisins hvort sem mönnum líkar betur eða ver. Þetta er jú af því það er Seðlabankinn sem gefur út mintina í landinu. Bankar hafa sjálfkrafa aðgang að "seðlaprentun" með ýmsu móti í gegn um lán gegn innistæðum og eigin fé. Bankar líta í raun á innistæður á bankareikningum sem sitt eigið fé. Fyrir þessu eru ýmsar ástæður sem of langt mál er að fara út í en þeir lána út á þetta "eigið fé" nær 20 fallt oft á tíðum (þetta var tífallt hér áður fyrr en hefur aukist af einhverjum ástæðum smátt og smátt). Þannig geta þeir margfaldað þann vaxtamun sem þeir hafa frá innistæðum til útlána. Innistæður viðskiptavina eru þeim því afar verðmætar og á það næstum jafnt við um yfirdrætti því þá sjá þeir einnig sem bókfærða eign.

Því stærri sem bankinn er því stærra hlutfall af peninga flæði markaðssvæðis þeirra fer um kerfin þeirra. Þetta er eins og peningafljót sem þeir geta tekið toll af og stækkar enn meir eftir því sem þeir ná að lána meira og auka innistæður viðskiptavina. Á tæknimáli rafeindafræðinnar er þetta kallað "pósitíft feedback". Það er því afar mikilvægt að fjármálaeftirlit sé öflugt, virkt og strangt. Eignatengsl á milli fjárfestingabanka og banka eiga ekki að eiga sér stað þ.e.a.s. viðskiptabankar ættu alls ekki mega lána til fjárfestingabanka sem þeir eru tengdir á einhvern hátt beint eða óbeint. Stórir eigendur banka ættu helst alls ekki að geta fengið lán hjá þeim banka sem þeir eiga í sjálfir nema þá innan tiltekinna marka sem miðast t.d. við húsnæðisverð á markaði eða eitthvað slíkt. Lán banka til hlutafjárkaupa í bankanum sjálfum eru eins og dæmin sanna ávísun á misnotkun og spillingu. Spurningin er hvort fjármálaeftirlit í svo litlu landi þar sem persónutengsl eru eins rík og raun ber vitni, eigi ekki að vera í nánu samstarfi við norrænt eftirlit þ.e. að þau hjálpi við að hafa eftirlit með fjármálastofnunum hvors annars.

Viðskipti og stjórnmálamenn
Sumir segja að þetta sé eitruð blanda. Það er hárrétt. Alþingismenn ættu ekki að vera í stjórn eins einasta fyrirtækis sem veltir meira en 2 árslaunum alþingismannsins eða svo. Eignatengsl þeirra og þeirra nánustu eiga að vera opinberar upplýsingar á alþingisvefnum sjálfum. Það liggur í augum uppi af hverju. Sjái þingmaður ekki til þess að eignatengsl hans séu öllum aðgengileg ætti hann að eiga á hættu að missa sæti sitt á þingi. Alþingismenn eiga ekki að vera forkólvar / stjórnarmenn verkalýðsfélaga, atvinnurekenda eða neinna sérstakra hagsmunasamtaka. Þeir eiga að afsala sér slíkum stöðum þegar þeir gerast þingmenn.