26. júl. 2010

Matvælaframleiðandi fær skaða sinn bættan

Matvælaframleiðandi er uppvís að því að setja bönnuð heilsuspillandi fæðubótaefni í nokkrar vörur. Viðskiptavinur hætti að greiða afborganir af sendingu af slíkri vöru þegar gallinn varð honum ljós. Framleiðandinn setti reikninginn í innheimtu og málið fór fyrir héraðsdómara. Hæstiréttur hafði áður staðfest viðkomandi fæðubótaefni ólöglegt samkvæmt landslögum.

Héraðsdómari komst að þeirri niðurstöðu að framleiðandinn hefði orðið fyrir forsendubresti með dómi Hæstaréttar og dæmdi kaupandann til að greiða fyrir vöruna að frádregnum ólöglegum efnum en með sérstöku álagi útgefnu af matvælastofu auk áfallina dráttarvaxta. Fjöldi aðila, þar á meðal ríkisstjórn landsins og nokkrir málsmetandi og lærðir menn gáfu í kjölfarið yfirlýsingar um að þetta væri réttlát niðurstaða fyrir alla.

24. júl. 2010

Sent fréttastofu RÚV vegna heimsendaspár

Leiðari en ekki frétt - athugasemd við frétt

http://www.ruv.is/frett/allt-ridar-vegna-bilalansdoms-a-morgun

Ég vil leggja til við fréttastofu RÚV að ofangreind "frétt" verði tekin út sem frétt og flokkuð sem leiðari RÚV.

Nokkur dæmi sem styðja ofangreinda tillögu:
"Miðað við svörtustu útkomu er óttast að bankakerfið hrynji að nýju. "
Fyrir hvern er útkoman svört? Fyrir fréttamann RÚV, heimilin, verðtryggða lánþega, viðskiptaráðherra?
Þegar menn eru með gífuryrði í frétt þarf að gera grein fyrir því hvaðan þau eru komin. Ætlar fréttastofa RÚV að gefa út yfirlýsingar um stöðu mála frá þeirra sjónarhól eða ætlar fréttastofa RÚV að flytja fréttir? Getur fréttastofa RÚV tekið ábyrgð á yfirlýsingum af þessu tagi? Er það niðurstaða fréttastofu RÚV að tapi Lýsing þessu máli sé það svört útkoma fyrir Ísland?

"Ef skuldarinn vinnur í héraðsdómi og Hæstarétti síðar, og ef niðurstaðan er yfirfærð á öll krónulán með gengistengingu þýðir þetta skell fyrir bankakerfið upp á 350 milljarða króna."
Þetta eru ýtrustu spár en hvað sem því líður þarf að gera þarf grein fyrir hvaðan þessar upplýsingar eru komnar. Bent skal á að fram hafa komið upplýsingar/greiningar sem hrekja þetta (http://marinogn.blog.is/blog/marinogn/entry/1076626/). Einnig má leiða rök að því að þessir peningar eru óinnheimtanlegir (sokkin kostnaður). Menn þurfa að velta fyrir sér hvað það þýðir í eignaupptöku, upplausn, eignatilfærslum, fólksflótta frá landinu ofl. Ætlar fréttastofa RÚV að leggja sjálfstætt mat á hvaða áhrif þessi atriði hafa á bankakerfið og efnahagskerfið í heild sinni? Ég geri ekki ráð fyrir því og mæli með að fréttastofan gæti meira hlutleysis í fréttaflutningi. Viðtakandi fréttar á rétt á að vita hvaðan upplýsingarnar eru.

"Minna fengist upp í mögulega Icesave-skuld sem aftur þýddi aukin útgjöld fyrir skattgreiðendur."
Þetta er algjörlega ósannað en er borið á borð eins og staðreynd í fréttinni. Sé þetta komið frá einhverjum tilteknum aðila væri rétt að tilgreina hann. Bendi einnig á það sem á undan hefur verið sagt um meintan skell.

Eftirfarandi er alveg kostulegt:
"Á stjórnarheimilinu láta menn reka á reiðanum. Lítil eining virðist um að taka í taumana með lagasetningu áður en málið fer sinn veg í dómskerfinu. Full vitund er þó um það að skuldarar íslenskra verðtryggðra lána munu vart taka því þegjandi að gengislántakendur sitji í lukkupottinum á meðan höfuðstóll þeirra lána hækka upp fyrir verðmæti eignanna með því að axla jafnvel ábyrgð á öðru hruni bankakerfisins."

Var ætlunin að vitna í einhvern sem sagði þetta eða er þetta skoðun fréttastofu RÚV? Hvaða lukkupott eruð þið að tala um? Er það lukkan að hafa verið í algjörri óvissu með sín fjármál í yfir tvö ár? Að vera hótað og ógnað af mulningsvél innheimtukerfisins? Svefnlausar nætur, skilnaður, sundrun fjölskyldna, sjálfsvíg skuldara? Er það þessir lukkupottar sem þið eruð að vísa í?

Hér er önnur frétt frá RÚV sem er í alla staði meira í anda þess að flytja fréttir:
http://www.ruv.is/frett/domurinn-fell-lysingu-i-vil-0

Ég vil leggja til að sá sem skrifaði fyrri fréttina fái leiðsögn frá þeim sem skrifaði þá seinni. Ef það er sama manneskjan þarf hún að veita sjálfri sér tiltal :o) Það væri reyndar verðugt rannsóknarefni fyrir fréttastofu RÚV hvort hægt sé að staðfesta það sem sagt er í lok seinni fréttarinnar. Getur verið að það sé málamyndagjörningur/
hentisemisskýring að eiginmaður dómarans "leigi" húsnæði af lögmannastofu sækjanda. Ef maður fer á staðinn fær maður nefnilega þá mynd að þetta sé ein skrifstofa þar sem fólk vinni saman.

Virðingarfyllst,

Ólafur Garðarsson